Fótbolti

Talsmaður Ferdinand lætur Hodgson heyra það

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rio og vinir hans eru allt annað en sáttir
Rio og vinir hans eru allt annað en sáttir MYND/NORDIC PHOTOS GETTY
Talsmaður Rio Ferdinand segir enska knattspyrnusambandið og Roy Hodgson þjálfara enska landsliðsins hafa komið fram við varnarmanninn af "fullkomnu virðingaleysi" eftir að Rio Ferdiand var enn einu sinni sniðgenginn í vali á varnarmönnum í enska landsliðið fyrir Evrópumeistaramótið í Póllandi og Úkraínu.

Þegar upphaflegur leikmannahópur Englands var valinn sagði Roy Hodgson "knattspyrnulegar ástæður" liggja að baki því að Ferdinand væri ekki í leikmannahópnum en ekki að hann teldi að John Terry og Rio Ferdinand gætu ekki leikið saman með liðinu í ljósi þess að Anton Ferdinand, bróðir Rio, eigi í málaferlum gegn Terry vegna meintra kynþáttafordóma.

Nú hafa varnarmennirnir Phil Jagielks og Martin Kelly verið kallaðir inn í hópinn vegna meiðsla og báðir teknir fram yfir Rio Ferdinand sem er 33 ára gamall og er mjög reynslu mikill.

"Lampard, Terry, Barry og Gerrard eru allir að eldast en þeir voru í upphaflegum hópi Englands. Hvað er öðruvísi með Rio," sagði Jamie Moralee talsmaður og vinur Rio Ferdinand.

"Að koma fram við leikmann sem hefur verið fyrirliði Englands og leikið 81 landsleik er fyrir neðan allar hellur. Knattspyrnusambandið og Hodgson hefur komið fram við Rio af fullkomnu virðingaleysi."

Frank Lampard og Gareth Barry hafa samtals leikið 143 landsleiki og því vekur furðu að Kelly sem lék alls 12 leiki fyrir Liverpool á síðustu leiktíð sé valinn í liðið á sama tíma og mun reynslu meiri Rio Ferdinand lék 38 leiki fyrir Manchester United og þar af 16 síðustu leiki liðsins í deildinni.

Viðbrögð Rio Ferdinand á Twitter voru; "hvaða ástæður?????!!!". Rio Ferdinand er skiljanlega ósáttur við að vera ekki valinn en það þýðir að hann mun aldrei leika í lokakeppni Evrópumeistaramótsins en hann hefur misst af fjórum slíkum af hinum ýmsu ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×