Innlent

100 milljón króna hækkun gjalda á innanlandsflug

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. Mynd / Vilhelm Gunnarsson
Lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli hækka um 72% og farþegagjöld á sama flugvelli hækka um 71%, auk þess mun flugleiðsögugjald hækka um 22%. Samtals munu þessar hækkanir þýða yfir 100 milljóna króna kostnaðaraukningu fyrir Flugfélag Íslands á þessu ári.

Boðaðar hafa verið frekari hækkanir á næsta ári sem mun, ef af verður þýða aftur hækkun uppá 150 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands.

Í tilkynningunni segir ennfremur að hækkanir undanfarinna ára hafa verið verulega íþyngjandi og er nú svo komið að á undanförnum 3 árum hafa gjöld sem eingöngu tengjast notkun flugvalla í innanlandskerfinu tvöfaldast.

Þannig greiddi Flugfélag Íslands árið 2009 um 207 milljónir króna í farþega og lendingargjöld en áætla má að á árinu 2012 verði þessi kostnaður um 443 milljónir króna og eru þá meðtalin flugleiðsögugjöld og kolefnisgjald en þau gjöld eru ný gjöld sem ekki voru til árið 2009.

Auk ofangreindra gjalda bætist á flugið frá síðustu áramótum svokallað útblásturgjald undir hatti hins samevrópska ETS (Emission Trading Scheme) kerfis. Ekki er tekið tillit til þessara álaga með því að fella niður kolefnisgjaldið á móti og mun það vera einstakt að rukkað sé umhverfisgjald bæði þegar eldsneyti fer á flugvélar og síðan aftur þegar notkun er lokið.

Flugfélag Íslands skorar á stjórnvöld að endurskoða þessar miklu hækkanir, samneyti landsbyggðar og höfuðborgar mun ekki geta vaxið og dafnað þar sem hagkvæmar og góðar samgöngur eru lykilþáttur í slíkri vegferð, eins og fram kemur í tilkynningu frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×