Fótbolti

Guðlaugur Victor lánaður til Hollands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðlaugur Victor í leik með Red Bulls.
Guðlaugur Victor í leik með Red Bulls. Nordicphotos/Getty
Guðlaugur Victor Pálsson verður lánaður til hollenska félagsins NEC Nijmegen í efstu deild hollenska boltans. Þetta staðfesti Guðlaugur Victor í samtali við íþróttadeild Vísis í dag.

„Forráðamenn félagsins sáu mig með U21 landsliðinu í Noregi í júní. Þeir höfðu samband við Red Bulls eftir það, vildu kaupa mig en New York vildi ekki selja," segir Guðlaugur Victor.

Miðjumaðurinn flýgur í kvöld til Þýskalands og heldur í framhaldinu til Hollands þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun á morgun. Hann segir málið því í raun ekki frágengið en reiknar ekki með öðru en allt fari vel.

„Ég ætti nú ekki að falla á læknisskoðuninni en maður veit aldrei," segir Guðlaugur Victor léttur.

Guðlaugur Victor hefur leikið með New York Red Bulls í MLS-deildinni vestanhafs undanfarið hálft ár. Hann hefur ekki átt fast sæti í liðinu en þó tekið þátt í sautján leikjum félagsins.

„Eftir að við keyptum Tim Cahill fór mínútunum að fækka svo umboðsmaðurinn minn og ég spurðum hvort það væri ekki sniðugt að ég færi á láni," segir Guðlaugur Victor sem hefur komið víða við erlendis þótt hann sé aðeins 21 árs.

Guðlaugur Victor var á leiðinni frá New Jersey yfir á Manhattan-eyju í New York þar sem hann ætlaði að njóta síðasta dagsins áður en hann fer í flugið í kvöld. Hann hlakkar mikið til að spila í Hollandi.

„Þeir sjá mig sem djúpan miðjumann. Deildin er góð og liðið er sterkt svo ég hlakka rosalega mikið til."

Guðlaugur Victor hittir fyrir félaga sína úr yngri landsliðum Íslands í Hollandi. Kolbeinn Sigþórsson leikur með Ajax, Jóhann Berg Guðmundsson með AZ Alkmaar og Alfreð Finnbogason með Heerenveen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×