Innlent

Hellisheiðin lokuð - björgunarsveitir ferja fólk til Hveragerðis

Um fimmtán til tuttugu björgunarsveitarmenn eru nú staddir á Hellisheiðinni að aðstoða fjölda bíla sem eru fastir vegna veðurs. Heiðinni hefur nú verið lokað og hefur Rauði krossinn í Hveragerði opnað aðstöðu fyrir þá sem þurfa á því að halda.

Samkvæmt upplýsingu frá lögreglunni á Selfossi er búið að virkja svæðisstjórn björgunarsveitanna á Suðurlandi. Björgunarsveitarmenn frá Hveragerði, Selfossi, Þorlákshöfn og Reykjavík eru nú aðstoða ökumenn sem sitja fastir í bílum sínum. Að minnsta kosti er einn strætisvagn fastur á heiðinni og nokkir flutningabílar.

Björgunarsveitarmenn vinna nú að því að flytja fólk til Hveragerðis og þar getur það leita húsaskjóls hjá Rauða krossnum sem hefur opnað aðstöðu. Mikill skafrenningur og óveður er á svæðinu.

Varðstjóri hjá lögreglunni segir að heiðin verði ekki opnuð bráðlega en henni var lokað fyrir um klukkutíma. Fylgst verður með gangi mála hér á Vísi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×