Innlent

Ódýrast að ferðast um landið með Strætó

Hinir hefðbundu gulu vagnar Strætós munu halda sig við höfuðborgarsvæðið á meðan þessir bláu og gulu keyra út á land.
Hinir hefðbundu gulu vagnar Strætós munu halda sig við höfuðborgarsvæðið á meðan þessir bláu og gulu keyra út á land.
Að taka strætó á milli bæjarfélaga virðist vera ódýrasti ferðamátinn sem völ er á. Vagnarnir munu keyra til meira en fjörutíu bæjarfélaga eftir áramót. Strætó bs. fær 30 milljónir árlega frá sveitarfélögunum fyrir þátt sinn í starfinu.

Hinar hefðbundnu strætóferðir eru ekki lengur bundnar við styttri vegalengdir innan bæja- eða borgarmarka, eins og landsmönnum ætti að vera orðið kunnugt. Farþegar geta ferðast með vögnunum um allt Suðurland, mestallt Norðurland og eftir áramót til Austurlands. Strætó er farinn að sinna mun víðara þjónustuhlutverki; ferðum sem rútur og skipulagðir langferðarbílar gerðu áður, eins og við þekkjum frá nágrannalöndum okkar.

Mikið hefur verið fjallað um þetta breytta fyrirkomulag Strætós í fjölmiðlum, og sýnist sitt hverjum. Sérleyfishafar hafa gagnrýnt fyrirtækið og segja sumir að útboðin hafi ekki verið sanngjörn, jafnvel ósamkeppnishæf.

Verkefnið er samstarf á milli Strætós BS. og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætós, segir það fyrst og fremst til komið vegna hagræðingar í stjórnsýslunni og vilja sveitarfélaganna til að bjóða landsmönnum upp á sem hagkvæmastan ferðamáta.

„Málaflokkurinn fluttist frá ríkinu til landshlutasamtaka sveitarfélaga, ásamt peningunum sem því fylgir,“ segir Reynir. „Sá peningur er notaður til að bjóða upp á akstur á milli landshluta. Aksturinn er boðinn út, lægsta tilboði tekið og allt er þetta miðað við fjárhaginn sem er í boði.“

Reynir segir forskot Strætós vera stórt í þessum efnum, þar sem reynsla, tækni og þekking komi saman til að gera þetta á sem öruggastan og hagkvæmastan hátt. Útboðsverðmæti alls aksturs um Vestur- og Norðurland er 202 milljónir króna og fær Strætó 15 prósent af þeirri þóknun.

„Þessar 30 milljónir eru fyrir okkar umsýslu í málinu,“ segir Reynir. „Það er fyrir að reka og sjá um upplýsingakerfi, öryggismál, skipulagningu ferða og viðhald ökutækja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×