Menning

Mo Yan hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels

Kínverski höfundurinn var sigurstranglegur í ár að mati veðbanka. Dómnefndin veitti honum verðlaun fyrir „Ofskynjunarkennt raunsæi sem bræðir saman þjóðsögur, fortíð og samtíð“.
Kínverski höfundurinn var sigurstranglegur í ár að mati veðbanka. Dómnefndin veitti honum verðlaun fyrir „Ofskynjunarkennt raunsæi sem bræðir saman þjóðsögur, fortíð og samtíð“.
Fræðingum ber ekki saman um hvernig beri að lýsa skáldskap Kínverjans Mo Yan, sem hlaut í gær bókmenntaverðlaun Nóbels. Sumir hafa lýst honum sem svari Kína við Franz Kafka eða Joseph Heller en á vefsíðu breska dagblaðsins Guardian í gær var honum líkt við Kólumbíumanninn Gabriel Garcia Marquez og bandaríska höfundinn Thomas Pynchon.

Mo Yan er tiltölulega óþekkt nafn á Vesturlöndum en hefur engu að síður verið ofarlega á listum veðbanka yfir þá sem eru líklegastir til að hreppa Nóbelsverðlaunin. Hann er fæddur í Kína árið 1955. Að sögn tímaritsins Time er hann í hópi þeirra höfunda hvers verk hafa verið einna oftast bönnuð í Kína en samt sem áður náð að vekja athygli.

Mo Yan er reyndar höfundarnafn og merkir "ekki tala", en réttu nafni heitir hann Guan Moye. Mo Yan hefur skrifað tugi skáldsagna og smásagnakvera frá því að fyrsta bók hans kom út árið 1981. Þá nýjustu kveðst hann hafa skrifað á aðeins 43 dögum. Nokkrar bóka hans hafa verið þýddar á ensku. Þekktust er líklega Red Sorghum sem samnefnd kvikmynd var gerð eftir árið 1987.

Í umsögn dómnefndar kom fram að hann hljóti Nóbelsverðlaunin fyrir "ofskynjunarkennt raunsæi sem bræði saman þjóðsögur, fortíð og samtíð". Eftir því sem næst verður komist hafa verk hans ekki verið þýdd á íslensku, en enskar þýðingar á verkum hans má finna á bókasöfnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×