Fótbolti

Kári: Gæti vel hugsað mér að spila í Kína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kári Árnason verður ekki áfram hjá Aberdeen og framtíðin er óráðin.nordicphotos/getty
Kári Árnason verður ekki áfram hjá Aberdeen og framtíðin er óráðin.nordicphotos/getty
Kári Árnason veltir fyrir sér næsta áfangastað en samningur landsliðsmannsins við skoska félagið Aberdeen rann út um mánaðamótin. Kára var vel tekið í Skotlandi og þótti standa sig afar vel. Stuðningsmenn Aberdeen vildu ólmir halda Kára en félagið hafði ekki fjárráð til þess.

„Aberdeen mætti ekki þeim launakröfum sem ég gerði í janúar. Þeir reyndu þó að halda mér og buðu mér besta samning sem þeir gátu boðið," segir Kári og bætir við að félagið hafi reynt eftir fremsta megni að klára samninginn en það hafi á endanum dottið upp fyrir.

„Í örvæntingu sinni fékk knattspyrnustjórinn tvær gamlar kempur til liðsins í janúar til að leysa okkur af hólmi ef við skyldum fara. Svo var ráðstöfunarfé stjórans skorið við nögl og ekkert eftir til að halda mér," segir Kári og skilja má orð hans þannig að hann hafi lækkað launakröfur sínar þegar leið að lokum keppnistímabilsins.

„Ég er með eitt tilboð á borðinu og veit af áhuga hjá öðru félagi en þetta er spurning um að stökkva á það sem er í hendi eða bíða og sjá. Þetta er erfið staða," segir Kári sem dvelur á Íslandi þessa dagana og slakar á.

Kári segir margt spennandi við tilboðið sem býðst honum. Félagið sé ekki það stærsta en hafi byggt nýjan leikvang og ætli sér stóra hluti á skömmum tíma.

„Þetta er verkefni sem gæti verið mjög skemmtilegt," segir Kári sem segir málið skýrast á næstu dögum.

„Svo eru strákar að fara til Kína og það er deginum ljósara hvers vegna. Mér hefur ekki boðist að fara til Kína en ef það byðist myndi ég vafalítið taka því," segir Kári og hlær.

Kári stóð vaktina í vörn íslenska landsliðsins í æfingaleikjunum gegn Frökkum og Svíum í lok maí. Kári hefur þó að mestu spilað sem miðjumaður undanfarin ár líkt og lengst af ferlinum.

„Það hafa allir þjálfarar, allt frá því Sigurður Jónsson þjálfaði mig hjá Víkingi, sagt mér að þeir vildu nota mig sem miðvörð. Það hefur hins vegar ævinlega þróast þannig að liðin hafa verið í basli á miðjunni og ég hafnað þar líkt og hjá Plymouth og Aberdeen," segir Kári sem segist munu enda sem miðvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×