Enski boltinn

Ferguson: United nálægt því að kaupa Van Persie

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson segir að lykillinn að því að stöðva Arsenal í dag sé að stöðva Robin van Persie. Hann segir að United hafi á sínum tíma verið nálægt því að kaupa Van Persie frá Feyenoord.

United og Arsenal mætast klukkan 16.00 í dag en Van Persie hefur verið nánast óstöðvandi að undanförnu. „Ég man eftir því að hafa farið á varaliðsleik með Feyenoord til að sjá hann spila fyrir löngu síðan," sagði Ferguson við enska fjölmiðla.

„Við höfðum mikinn áhuga en hann spilaði ekki allan leikinn daginn sem við fórum að skoða hann. Hann var annað hvort rekinn af velli eða labbaði sjálfur út af. Ég man ekki hvort það var en niðurstaðan var að við ætluðum ekki að gera meira í málinu."

„Ég held að ég hafi ekki séð hann spila nógu mikið til að taka ákvörðun. En Arsenal hafði fylgst mjög náið með honum og fékk á endanum frábæran leikmann."

„Tilfellið er einfaldlega það að til þess að stöðva Arsenal þarf að stöðva Van Persie. Hann hefur verið frábær allt tímabilið og tölfræðin talar sínu máli. Ég vona að hann bæti hana ekki enn frekar um helgina."

„Arsenal hefur verið að stóla á hann en það er líka hægt að segja það sama um Barcelona. Ef maður stöðvar Messi er Barcelona ekki jafn gott lið og venjulega. Eins með Cristiano Ronaldo og Real Madrid."

„Öll bestu liðin eru með leikmenn sem geta breytt öllu. Manchester City er með David Silva og í mörg ár var Didier Drogba leikmaður sem gat unnið hvaða leik sem er með Chelsea."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×