Enski boltinn

Chelsea skoraði fjögur á White Hart Lane

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Chelsea er enn ósigrað í ensku úrvalsdeildinni en liðið hafði í dag betur gegn grönnum sínum í Tottenham, 4-2, eftir að hafa lent 2-1 undir í leiknum. Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn í liði Tottenham.

Gary Cahill kom Chelsea yfir strax á sautjándu mínútu leiks með föstu skoti úr vítateignum og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins.

En Tottenham byrjaði síðari hálfleikinn af krafti. William Gallas, fyrrum leikmaður Chelsea, jafnaði metin fyrir heimamenn á 47. mínútu og Jermain Defoe kom svo Tottenham yfir sjö mínútum síðar.

Þá var komið að Juan Mata. Hann skoraði tvö mörk á þriggja mínútna kafla um miðbik síðari hálfleiks og lagði svo upp fjórða mark Chelsea fyrir Daniel Sturridge í uppbótartíma. Fjórða markið kom eftir slæm mistök bakvarðarins Kyle Walker.

Chelsea er á toppi deildarinnar með 22 stig af 24 mögulegum. Liðið er nú með sjö stiga forystu á Manchester-liðin en bæði eiga leik til góða. Tottenham er í sjötta sætinu með fjórtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×