Enski boltinn

Verður fyrsti leikur Tevez á móti Chelsea?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez mætir brosani á æfingar City þessa dagana.
Carlos Tevez mætir brosani á æfingar City þessa dagana. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, útilokaði það ekki á blaðamannafundi í dag að Carlos Tevez myndi spila sinn fyrsta leik í síðan í september, þegar Manchester City mætir Chelsea í næstu viku.

Carlos Tevez hefur ekki spilað með liðinu frá því í deildarbikarleik á móti Birmingham 21. september síðastliðinn en allt fór upp í háaloft á milli hans og Mancini þegar Tevez neitaði að hita upp í Meistaradeildarleik á móti Bayern Munchen í lok september.

Tevez hefur spilað tvo varaliðsleiki með City síðan að hann snéri aftur eftir sjálfskipaða útlegð í Argentínu. Hann braut ísinn með því að biðja félagið og stuðningsmenn þess afsökunar á hegðun sinni. En ætlar Mancini að nota hann á móti Chelsea?

„Við munum sjá til í næstu viku en þetta fer allt eftir Carlos sjálfum," sagði Roberto Mancini. Tevez hefur ekki skorað fyrir Manchester City á þessu tímabili en skoraði 44 mörk í 69 deildarleikjum tímabilin á undan.

Manchester City mætir Chelsea eftir viku en liðið mætir Sporting Lissabon annað kvöld í seinni leiknum í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Sporting vann fyrri leikinn 1-0. Gareth Barry, Vincent Kompany og Pablo Zabaleta verða ekki með á móti portúgalska liðinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×