Enski boltinn

Flottustu leikir Steven Gerrard með Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Sheringham blaðamaður á BBC Sport tók sig til og valdi sex bestu leiki Steven Gerrard með Liverpool eftir að fyrirliði Liverpool skoraði þrennu í 3-0 sigri á nágrönnunum í Everton í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

„Besti varnarmaðurinn á vellinum var Steven Gerrard, besti miðjumaðurinn var Steven Gerrard, besti sóknarmaðurinn var Steven Gerrard, það hreyfði sig enginn betur án bolta en Steven Gerrard og það var enginn leikmaður með betra hugarfar en Steven Gerrard. Ég sé ekki hvernig þú getur spilað betur en Steven Gerrard gerði í þessum leik," sagði Pat Nevin, sérfræðingur BBC, eftir leikinn.

Gerrard bætti met Robbie Fowler í gær en enginn leikmaður hefur nú skoraði fleiri mörk í leikjum Merseyside-liðanna í ensku úrvalsdeildinni. Fowler skoraði sex á sínum tíma en Gerrard er nú kominn með sjö mörk. Gerrard var líka fyrsti Liverpool-maðurinn til að skora þrennu á móti Everton á Anfield síðan að Fred Howe afrekaði það árið 1935.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Steven Gerrard dregur vagninn í flottum sigrum Liverpool-liðsins og Sam Sheringham fann fimm aðra eftirminnilega leiki hjá Gerrard sem lék sinn 400. deildarleik með Liverpool í gær.



Eftirminnilegustu leikir Steven Gerrard með Liverpool
Mynd/Nordic Photos/Getty


1) Liverpool 3-3 AC Milan, úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í maí 2005


Liverpool lenti 3-0 undir í fyrri hálfleik en kom til baka og vann síðan leikinn í vítaspyrnukeppni. Steven Gerrard kveikti í sínum mönnum með því að skora fyrsta markið og fiskaði síðan vítið sem gaf jöfnunarmarkið.

2) Liverpool 3-3 West Ham, úrslitaleikur enska bikarsins í maí 2006

Steven Gerrard jafnaði leikinn í 3-3 með frábæru langskoti í uppbótartíma þegar allt stefndi í sigur West Ham. Þetta var annað mark Gerrard í leiknum og hann skoraði einnig úr sinni spyrnu í vítakeppninni sem Liverpool vann 3-1.

3) Liverpool 3-1 Olympiakos, Meistaradeildarleikur í desember 2004

Liverpool hefði aldrei komist í úrslitaleikinn 2005 ef liðið hefði ekki unnið tveggja marka sigur á gríska liðinu Olympiakos í riðlakeppninni. Gerrard tryggði 3-1 sigur með frábæru marki á 86. mínútu.

4) Liverpool 3-1 Napoli, í Evrópudeildinni í nóvember 2010

Steven Gerrard kom af bekknum og skoraði þrennu á aðeins fjórtán mínútum á móti sterku liði Napoli. Gerrard kom inn á í hálfleik þegar ítalska liðið var 1-0 yfir.

5) Liverpool 2-0 Manchester United, í ensku úrvalsdeildinni í mars 2001

Steven Gerrard var aðeins tvítugur á þessum tíma en þegar búinn að vinna sér fast sæti í Liverpool-liðinu. Hann skoraði eftirminnilegt mark af 25 metra færi í þessum leik og var allt í öllu á miðju liðsins. Liverpool náði því að vinna báða deildarleikina á móti United í fyrsta sinn í 22 ár.

6) Liverpool 3-0 Everton, í ensku úrvalsdeildinni í mars 2012

Steven Gerrard skoraði öll mörkin þegar Liverpool endaði þriggja leikja taphrinu með 3-0 sigri á nágrönnunum í Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×