Innlent

"Ég hef aldrei séð annað eins"

Þessi mynd náðist af Geminítar loftsteinadrífunni á síðasta ári.
Þessi mynd náðist af Geminítar loftsteinadrífunni á síðasta ári.
„Ég hef aldrei séð annað eins," segir Ómar Sigurðsson sem var á ferð við Eyrarbakka nú í kvöld en þar sá hann hvert stjörnuhrapið á fætur öðru.

Ómar var á leið frá Reykjavíkur til Eyrarbakka þegar hann varð vitni að ljósadýrðinni.

„Þetta er 30 mínútna akstur og ég sá að minnsta kosti 21 stjörnuhrap," segir Ómar en hann hafði samband við Vísi til að tilkynna um fyrirbærið.

Staðreyndin er sú að ein tilkomumesta loftsteinadrífa ársins nær hápunkti sínum í kvöld og á morgun. Fyrirbærið er kallað Geminítar og og kennt við stjörnumerkið Tvíburana.

Loftsteinadrífur myndast þegar Jörðin ferðast í gegnum slóð ísagna sem losnað hafa frá halastjörnum. Þegar agnirnar brenna upp í lofthjúpi Jarðar myndast síðan mikið sjónarspil, eins og Ómar þekkir af eigin reynslu.

„Ég lagði bílnum við afleggjarann að Eyrarbakka og horfði upp í himininn," segir Ómar. „Það er sérstaklega gott veður hérna, heiðskýrt, kalt og smá vindur."

Ef lesendur Vísis verða vitni að þessu ótrúlega náttúrufyrirbæri er þeim velkomið að senda okkur ljósmynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×