Enski boltinn

Mancini: Manchester City er með betra lið en Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, er harður á því að sínir menn hafi sannað það um síðustu helgi að þeir eru með betra lið en Manchester United þrátt fyrir 2-3 tap.

Robin van Persie tryggði Manchester United sigurinn með marki úr aukaspyrnu í uppbótatíma og United náði fyrir vikið sex stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

„Við sýndum það um síðustu helgi að við erum með betra lið en Manchester United. Þeir hafa hinsvegar meiri reynslu en við og eiga ekki í vandræðum með að lenda undir í sínum leikjum því þeir halda alltaf áfram," sagði Roberto Mancini á blaðamannafundi fyrir leik City á móti Newcastle í dag sem er hádegisleikurinn í ensku úrvalsdeildinni.

„Við þurfum að læra þetta af þeim. Nú stendur þetta og fellur með því hvort við getum unnið upp þessi sex stig. Tímabilið er langt og allt gæti breyst í febrúar þegar Meistaradeildin fer í gang á ný," sagði Mancini en City-liðið hefur spilað sinn síðasta Evrópuleik á tímabilinu.

„Við erum samt bara sex stigum á eftir þeim og þetta er ekki stórt vandamál. Ég trúi enn á mína menn og við eigum enn möguleika á því að verða meistarar," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×