Erlent

Kýótó-bókunin um losun gróðurhúsaloftegunda framlengd

Mengun í Reykjavík. Myndin er úr safn og tengist ekki fréttinni beint.
Mengun í Reykjavík. Myndin er úr safn og tengist ekki fréttinni beint.
Skuldbindingar Kýótó-bókunarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda verða framlengdar til ársins 2020, samkvæmt ákvörðun 18. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem lauk í dag í Doha í Katar.

Samkvæmt tilkynningu frá umhverfis- og auðlindarráðuneytinu mun fyrsta skuldbindingartímabilinu, 2008-2012, ljúka nú í árslok, en með ákvörðuninni í Doha er tryggt að takmarkanir á losun verða framlengdar á nýju tímabili, 2013-2020.

Alls taka 37 ríki á sig bindandi skuldbindingar á nýju tímabili; allt Evrópuríki utan Ástralía. Samtals eru þau með um 15% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, sem er mun minna hlutfall en á 1. tímabili.

Á fundinum í Doha lauk nær 7 ára langri lotu samningafunda um framtíð Kýótó og eflingu aðgerða í loftslagsmálum.

Ísland hyggst uppfylla sínar skuldbindingar annars vegar með þátttöku í evrópsku viðskiptakerfi um losunarheimildir og hins vegar með því að framkvæma aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem samþykkt var í ríkisstjórn 2010.

Áætlunin gerir ráð fyrir um 30% minnkun nettólosunar í geirum utan viðskiptakerfisins til 2020, miðað við 2005. Ísland mun taka þátt í umræðum með ríkjum ESB og Króatíu á næstunni um frekari útfærslu hinna sameiginlegu skuldbindinga á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar.

Hér má lesa tilkynninguna í heild sinni:

Skuldbindingar Kýótó-bókunarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda verða framlengdar til ársins 2020, samkvæmt ákvörðun 18. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem lauk í dag í Doha í Katar. Fyrsta skuldbindingartímabilinu, 2008-2012, lýkur nú í árslok, en með ákvörðuninni í Doha er tryggt að takmarkanir á losun verða framlengdar á nýju tímabili, 2013-2020. Alls taka 37 ríki á sig bindandi skuldbindingar á nýju tímabili; allt Evrópuríki utan Ástralía. Samtals eru þau með um 15% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, sem er mun minna hlutfall en á 1. tímabili.

Á fundinum í Doha lauk nær 7 ára langri lotu samningafunda um framtíð Kýótó og eflingu aðgerða í loftslagsmálum. Flest ríki hafa tilkynnt um sjálfviljug markmið um minnkun losunar til 2020, en þau eru ekki lagalega bindandi eins og í Kýótó-bókuninni. Fjögur ríki sem voru með í Kýótó á 1. tímabili verða ekki með á 2. tímabili: Japan, Kanada, Nýja-Sjáland og Rússland. Í Doha komst á skrið ný lota samningaviðræðna, sem miðar að því að koma á bindandi skuldbindingum fyrir öll ríki. Stefnt er að því að ljúka samningi þess efnis árið 2015 og að hann taki gildi árið 2020.

Auk framlengingar Kýótó-bókunarinnar voru ýmsar ákvarðanir samþykktar í Doha sem lúta m.a. að því að auka loftslagstengda fjárhagsaðstoð til þróunarríkja og efla dreifingu loftslagsvænnar tækni. Fundurinn samþykkti ályktun um eflda þátttöku kvenna í starfi loftslagssamningsins, sem Ísland stóð að ásamt fjölda annarra ríkja. Ísland hefur lagt áherslu á jafnréttismál á vettvangi Loftslagssamningsins á undanförnum árum og átt þátt í að móta samningstexta og ályktanir um þau mál. Ísland stóð fyrir kynningarviðburði á Doha-fundinum um verkefni í Úganda, sem miðar að aukinni þátttöku kvenna í ákvörðunartöku og aðgerðum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Ísland er meðal þeirra ríkja sem tekur á sig skuldbindingar um takmörkun á losun á 2. tímabili Kýótó. Ísland tekur á sig sameiginlega skuldbindingu með ríkjum Evrópusambandsins og Króatíu um að draga úr losun um 20% til 2020, miðað við 1990. Með þessu fyrirkomulagi nýta ríkin sér ákvæði í Kýótó-bókuninni , sem heimilar ríkjum að taka á sig sameiginlegar skuldbindingar. Þetta þýðir að ekki er gerð krafa á hvert einstakt ríki í hópnum að draga úr losun um 20%, heldur aðeins ríkjahópinn í heild, en ríkin innan hans þurfa svo að ákveða sín á milli hverjar skuldbindingar hvers og eins verður. Gengið verður frá því í kjölfar Doha-fundarins, áður en breytingar á Kýótó-bókuninni verða fullgildar.

Ísland hyggst uppfylla sínar skuldbindingar annars vegar með þátttöku í evrópsku viðskiptakerfi um losunarheimildir og hins vegar með því að framkvæma aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem samþykkt var í ríkisstjórn 2010. Áætlunin gerir ráð fyrir um 30% minnkun nettólosunar í geirum utan viðskiptakerfisins til 2020, miðað við 2005. Ísland mun taka þátt í umræðum með ríkjum ESB og Króatíu á næstunni um frekari útfærslu hinna sameiginlegu skuldbindinga á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×