Erlent

Yngsti lögreglustjóri Mexíkó sækir um hæli í Bandaríkjunum

Marisol er ánægð í Bandaríkjunum. Herinn tekst nú á við fíkniefnahringi í Mexíkó.
Marisol er ánægð í Bandaríkjunum. Herinn tekst nú á við fíkniefnahringi í Mexíkó.
Marisol Valles Garcia komst í heimsfréttirnar árið 2010 þegar hún ákvað, aðeins tuttugu ára gömul, að verða lögreglustjóri í bænum Guadalupe.

Fréttin þótti aðallega merkileg vegna þess að tveir forverar hennar höfðu verið teknir af lífi af mexíkóskum fíkniefnahringjum sem ráða lögum og lofum í bænum, sem er skammt frá landamærum Bandaríkjanna, og því gríðarlega þýðingarmikill fyrir fíkniefnahringina sem vilja koma dópinu áleiðis til Bandaríkjanna.

Marisol var kokhraust til að byrja með og beindi spjótum sínu að heimilisofbeldi og afbrotum ungmenna í bænum sem telur um 9000 íbúa. Hún sagði þá að mexíkósku fíkniefnahringirnir kæmu sér ekki við, það væri hersins að takast á við þá.

þannig keypti hún sér frið til skamms tíma.

Það kom þó að því að fíkniefnahringirnir kröfðust þess að hún upplýsti þá um leyniaðgerðir mexíkóska hersins sem hefur skorið upp herör gegn samtökunum. Marisol neitaði. Skömmu síðar hringdi maður í hana og sagði einfaldlega við hana: „Fékkstu ekki skilaboðin? Nærveru þinnar er ekki óskað."

Marisol lét sér ekki segjast tvisvar, hún flúði rakleiðis til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þar sem hún hefur núna sótt um hæli. Í viðtali við New York Post segir hún að hún vinni í verksmiðju en maður hennar hafi unnið nokkur störf í Bandaríkjunum, svo sem byggingarvinnu. Saman eiga þau lítið barn. Hún vill ekki gefa upp hvar hún er eða hvað fjölskyldumeðlimir hennar heita af ótta við fíkniefnabarónana.

Hún segist þó ánægð með lífið, hún upplifir sig örugga í Bandaríkjunum.

Ástandinu í Mexíkó hefur stundum verið réttilega líkt við borgarastyrjöld en fíkniefnahringirnir svífast einskins. Meðal annars hafa fjöldagrafir fundist víðsvegar um Mexíkó sem fíkniefnahringirnir eru taldir ábyrgir fyrir. Siðleysið er slíkt að börn eru alin upp sem leigumorðingjar, en sá skæðasti var tólf ára þar til hann var handsamaður. Þannig það má jafnvel líkja ástandinu við barnahernað sem hefur verið stundaður í stríðshrjáðum ríkjum Afríku.

Mexíkósk yfirvöld hafa skorið upp herör gegn þessari gríðarlega öflugu glæpastarfsemi og unnið allnokkra sigra með aðgerðum sínum. Þó er enn óljóst hvort þær hafi afgerandi áhrif á þessi hættulegu glæpasamtök sem þrífast víða í Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×