Enski boltinn

Van Persie skoraði gegn Arsenal og United fór á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie.
Robin van Persie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robin van Persie skoraði í 2-1 sigri á Manchester United á Arsenal á Old Trafford í hádegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni en United-menn komust í toppsætið með þessum sigri. Chelsea getur reyndar endurheimt efsta sætið með sigri á Swansea á eftir. Arsenal-liðið endaði leikinn manni færri eftir að Jack Wilshere fékk sitt annað gula spjald á 69. mínútu. 

Robin van Persie er nú markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með átta mörk í fyrstu tíu deildarleikjunum með United en hann hefur nú skoraði á móti öllum félögum í ensku úrvalsdeildinni. Það var kannski skrifað í skýin að hann skyldi skora á móti sínum gömlu félögum í Arsenal.

Manchester United komst í 1-0 strax í byrjun leiks. Robin van Persie fékk þá gjöf frá Thomas Vermaelen eftir aðeins tvær mínútur og 38 sekúndur og menn þurftu því ekki að bíða lengi eftir því að hann refsaði sínum gömlu félögum. Vermaelen missti klaufalega frá sér boltann og Van Persie skoraði með viðstöðulausu hægri fótar skoti.

Wayne Rooney fékk tækifæri til að koma United í 2-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks en skaut þá framhjá úr vítaspyrnu sem dæmd var á Santi Cazorla fyrir að setja hendi fyrir fyrirgjöf hjá Ashley Young.  

Robin van Persie fékk líka dauðafæri í seinni hálfleik en tókst ekki að bæta við marki þar sem að Vito Mannone varði frábærlega frá honum. Patrice Evra kom United í 2-0 með skalla eftir fyrirgjöf Wayne Rooney á 67. mínútu og tveimur mínútum síðar fékk Jack Wilshere sitt annað gula spjald fyrir brot á Evra.

Santi Cazorla minnkaði muninn með skoti úr teignum á fjórðu mínútu í uppbótartíma en það var síðasta spyrna leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×