Enski boltinn

Newcastle nældi í stig á Anfield

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Luis Suarez skoraði sitt sjöunda deildarmark fyrir Liverpool þegar lið hans gerði 1-1 jafntefli gegn Newcastle á Anfield Road í dag.

Heimamenn í Liverpool voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum en gekk illa að finna leiðina í markið eins og svo oft áður á þessari leiktíð.

Yohan Cabaye kom gestunum frá Newcastle yfir með glæsilegu marki undir lok fyrri hálfleiks eftir frábæran undirbúning Hatim Ben Arfa. Hörkuskot Frakkans úr vítateignum flaug yfir Brad Jones í marki Liverpool og gestirnir leiddu í hálfleik.

Yfirburðir Liverpool í síðari hálfleiknum voru miklir en heimamönnum tókst aðeins einu sinni að finna leiðina í markið. Luis Suarez skoraði þá fallegt mark en Úrúgvæinn hefur farið mikinn í deildinni í vetur. Markið hans sjöunda í tíu leikjum.

Heimamenn sóttu án afláts og léku síðustu mínúturnar manni fleiri eftir að Fabricio Coloccini var rekinn útaf. Í viðbótartíma hrökk boltinn í þverslá gestanna sem héldu þó haus og nældu í dýrmætt stig.

Newcastle situr í 10. sæti með fjórtán stig en Liverpool er í 12. sæti með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×