Enski boltinn

Cole og Lampard gætu farið frá Chelsea

Roberto di Matteo, stjóri Chelsea, segist vilja halda þeim Frank Lampard og Ashley Cole hjá Chelsea en segir að það sé alls ekkert víst hvort það takist. Cole verður samningslaus næsta sumar og herma heimildir að Chelsea sé aðeins til í að bjóða honum nýjan eins árs samning. Það er Cole ósáttur við.

Man. Utd og PSG hafa þegar verið orðuð við bakvörðinn sterka.

"Hann er í flottu formi og getur spilað alla leiki. Hann á því mörg ár eftir," sagði Di Matteo en hann vísaði á Cole sjálfan varðandi spurningar um samningsmálin. "Ég vil samt halda honum hjá okkur."

Di Matteo segist ekki hafa neitt með samningsmál félagsins að gera. Þar sem hætta er á að leikmennirnir geti farið frítt næsta sumar er ekki búið að loka á þann möguleika að þeir verði seldir í janúar.

"Þannig virkar knattspyrnuheimurinn og á endanum þurfa allir að vera fagmannlegir þó svo samningamálin séu ekki öll á hreinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×