Erlent

Neyðarástand í sjö ríkjum vegn Sandy, þjóðvarðliðið kallað út

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í sjö ríkjum á austurströnd Bandaríkjanna og búið er að kalla úr hersveitir í þjóðvarðliðinu. Reiknað er með að Sandy nái landi í New Jersey síðdegis í dag.

Gífurlegur viðbúnaður er á austurströnd Bandaríkjanna vegna komu fellibylsins Sandy. Hundruð þúsunda manna hafa flúið frá þeim strandsvæðum sem talið er að fellibylurinn fari yfir. Talið er að allt að 60 milljónir manna geti orðið fyrir barðinu á Sandy vegna flóða, rafmagnsleysis og skemmda á híbýlum.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í New York ríki, New Jersey, Pennsylvaníu, Connecticut, Maryland og Virginíu og að hluta til í Norður Karólínu. Í þessum ríkjum hafa hersveitir úr þjóðvarðliðinu verið kallaðar út og eru þær í viðbragðsstöðu.

Í New York borg munu allar opinberar samgöngur, þar á meðal neðanjarðarlestakerfið, liggja niðri í dag, flugvellir verða lokaðir og stjórn kauphallarinnar hefur tilkynnt að markaðurinn í New York verði lokaður í dag og sennilega einnig á morgun.

Þá hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatt íbúa á austurströndinni að taka fellibylinn alvarlega og að fara eftir þeim ráðum og leiðbeiningum sem yfirvöld hafa gefið út.

Talið er að þegar Sandy nær til New York geti ölduhæðin við Manhattan orðið allt að 11 metrar. Þetta skýrist af því að Sandy mun sameinast öflugum kuldaskilum áður en fellibylurinn nær landi og mynda svokallaðan ofurstorm.

Sandy er enn fyrsta stigs fellibylur en vindhraðinn í honum hefur verið að aukast og mælist nú yfir 40 metrar á sekúndu. Reiknað er með að vindstyrkur Sandy aukist þegar fellibylurinn nær landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×