Erlent

Stefnir í stórsigur hjá Klitschko í þingkosningunum í Úkraínu

Allar líkur eru á að Vitali Klitschko núverandi heimsmeistari í hnefaleikum muni vinna stórsigur í þingkosningunum sem eru framundan í Úkraínu.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun á Reuters um flokkinn sem Klitschko stofnaði fyrir þessar kosningar og ber nafnið UDAR eða Höggflokkurinn. Nýjustu skoðanakannanir sýna að flokkur heimsmeistarans er með 16% fylgi meðal Úkraínumanna. Slíkt fylgi myndi skila Klitschko nærri 70 þingmönnum af 450 á þinginu og skapa honum lykilstöðu þar.

Sjálfur segir þessi þekkti hnefaleikakappi að hann sé reiðubúinn að ganga inn í hringinn á þingi Úkraínu og berjast þar án allra reglna.

Á Reuters kemur fram að það sé greinilegt að Klitschko er búinn að taka stöðu Juliu Timoschenko sem aðalleiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu og gæti jafnvel skorað sjálfan forsetann á hólm. Heiðarleg ímynd hans meðal Úkraínumanna fellur vel í kramið en stefnumál Höggflokksins eru á svipuðu róli og gengur og gerist hjá frjálslyndum vestrænum stjórnmálaflokkum.

Hinsvegar er spurningin sú hvort Kiltschko lifi af bardagann í þinginu því þingið er þekkt fyrir að flest högg þar eru undir beltisstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×