Erlent

Fann arabískan fjársjóð frá víkingaöld á Borgundarhólmi

Nýlega fannst arabískur myntfjársjóður frá víkingaöldinni á akri á Borgundarhólmi.

Um er að ræða stærsta slíkan fjársjóð frá níundu öld sem fundist hefur í Danmörku. Það var áhugamaður um fornleifafræði sem fann fjársjóðinn en um er að ræða 152 arabískar silfurmyntir sem kallast dirhemar og eru þær með áletrunum úr Kóraninum.

Flestar þessara mynta eru slegnar á árabilinu frá 750 til 850 af Abbside konungsveldinu en höfuðborg þess var Bagdad á þessum tíma. Nokkrar myntanna voru hinsvegar slegnar af kalífanum Harun al-Rashid sem þekktur er úr sagnasafninu 1001 nótt.

Í umfjöllun um málið hjá sjónvarpsstöðinni TV2 er haft eftir fornleifafræðingnum Gitte Ingvardson að um sé að ræða einn mikilvægasta fjársjóðsfund frá víkingaöldinni. Hann sýni að Borgundarhólmur hafi verið í töluverðum tengslum við fólk sem byggði landsvæðin í kringum Svartahafið á þessu tímabili og að eyjan hafi verið mikilvæg viðskiptamiðstöð milli Norðurlandanna og landsvæðanna við Svartahaf. Það sem styður þá kenningu er að flestar myntanna eru í bútum, það er hafa verið klipptar í tvennt eða fernt, og hafa því verið notaðar í viðskiptum á Borgundarhólmi á þessu tímabili.

Þessi fjársjóður er nú til sýnis á safninu á Borgundarhólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×