El Hadji Diouf, fyrrum leikmaður Liverpool, segir að Steven Gerrard sé ekki vinsæll meðal annarra leikamanna liðsins.
Diouf lék með Liverpool í tvö ár en samdi aldrei sérstaklega vel við Gerrard. Sá síðarnefndi greindi frá því í ævisögu sinni að Diouf hafi ekki gefið allt sitt til félagsins þegar hann var þar.
„Orð Gerrard lýsa afbrýðisemi hans," sagði Diouf í samtali við franska dagblaðið L'Equipe. „Ég var mikilvægasti maðurinn á þessum tíma. Ég fór með Senegal í átta liða úrslit HM 2002 og var á lista Pele yfir 100 bestu leikmenn aldarinnar - ekki hann."
„Ég ber virðingu fyrir honum fyrir afrek sín á knattspyrnuvellinum en það er enginn sjálfselskari en hann. Hann myndi frekar kjósa að Liverpool myndi tapa ef hann myndi skora."
„Honum stendur á sama um allt og alla. Ég hef rætt við merka Liverpool-menn og það þolir hann enginn."
Diouf er nú á mála hjá Leeds en hann hefur komið víða við á ferlinum og oft komist í fréttir fyrir hegðun sína innan vallar sem utan.
„Ég hef gert ýmislegt en aðrir hafa gert verri hluti en ég," sagði hann. „En ég hef aldrei farið í fangelsi og aldrei meitt annan leikmann á vellinum."
