Enski boltinn

Jafntefli á Loftus Road

Nordic Photos / Getty Images
Everton drógst aftur úr í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar er liðið mátti sætta sig við 1-1 jafntefli við botnlið QPR í síðari leik dagsins í deildinni.

David Hoilett kom QPR yfir strax á annarri mínútu eftir skyndisókn en skot hans breytti um stefnu á Leighton Baines, varnarmanni Everton.

Everton jafnaði metin með sjálfsmarki markvarðarins Julio Cesar á 33. mínútu. Steven Pienaar átti fyrirgjöf inn á teig úr aukaspyrnu þar sem Sylvain Distin skallaði að marki. Boltinn fór í stöngina, í Cesar og inn.

Pienaar fékk svo að líta rauða spjaldið í síðari hálfleik þegar hann fékk tvær áminningar með stuttu millibili. Síðari áminningin þótti þó ansi harkalegur dómur.

QPR náði þó ekki að færa sér liðsmuninn í nyt og niðurstaðan því jafntefli. Everton er því áfram í fjórða sætinu og nú með fimmtán stig, þremur á eftir Manchester-liðunum í næstu sætum fyrir ofan.

QPR er á botninum sem fyrr segir og með þrjú stig, rétt eins og Reading.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×