Erlent

Hlýnun Atlantshafsins veldur votviðri í Norður Evrópu

Hið mikla votvirði og úrhellisrigningar sem hrjáð hafa íbúa í norðurhluta Evrópu í sumar, að Íslandi undanskildu, stafa af hlýnun Atlantshafsins á undanförnum árum.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á vegum háskólans í Reading í Englandi. Rannsóknin beindist að áratugalangri sveiflu á hitastigi Atlantshafsins en hún sýnir hlýindi áratugina milli 1930 og 1960, kólnun á næstu þremur áratugum þar á eftir og síðan hlýindi sem hófust upp úr árinu 1990 og standa enn yfir. Þessar sveiflur voru svo bornar saman við veðurathuganir á sömu tímabilum.

Í ljós kemur að þegar hlýindaskeið standa yfir eins og í dag verður úrkoman í norður- og miðhluta Evrópu töluvert yfir meðallagi eins og sást s.l. sumar en á móti verður úrkoman langt undir meðallagi í suðurhluta álfunnar eða frá Portúgal til Tyrklands. Eins og kunnugt var í fréttum í sumar glímdu bæði Portúgalir og Spánverjar við mikla skógarelda í báðum löndunum vegna þurrkanna.

Prófessorinn Rowan Sutton sem stjórnaði rannsókninni segir í samtali við BBC að búast megi við að þetta ástand verði viðvarandi næstu árin þar sem engin merki eru um að Atlantshafið sé að kólna aftur í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×