Erlent

Þreytulegur og með grátstafinn í kverkunum

April Jones, fimm ára, hefur verið saknað í eina viku
April Jones, fimm ára, hefur verið saknað í eina viku
Breti á fimmtugsaldri, sem grunaður er um morðið á hinni fimm ára gömlu April Jones, var leiddur fyrir dómara í morgun. Leitin að stúlkunni hefur enn ekki borið árangur.

Maðurinn, sem heitir Mark Bridger, var handtekinn á þriðjudag vegna gruns um aðild að brotthvarfi April Jones. Hann er nú grunaður um að hafa myrt stúlkuna þó hennar sé enn saknað en April var numin á brott á mánudagskvöld fyrir viku þegar hún var að leik með vinum við heimili sitt í Wales.

Bridger hefur verið ákærður fyrir mannrán, morð og fyrir að hindra framgang réttvísinnar með því að losa sig við og fela lík hennar. Fréttaritari Skynews segir manninn hafa litið þreytulega út og verið með grátstafinn í kverkunum þegar hann var leiddur fyrir dómara í morgun. Hvorki hann né verjandi hans fékk tækifæri til að tjá sig en Bridger kemur aftur fyrir dómara á miðvikudag og verður þangað til í gæsluvarðhaldi.

Leitin að April stendur enn yfir en litlar líkur eru á að hún finnist á lífi þar sem hún þjáist af heilalömun og þarf nauðsynlega á lyfjum að halda. Sjálfboðaliðum hefur fækkað þar sem leitin er nú komin á það stig að kraftar sérhæfðra lögreglumanna nýtast best. Tíu lögregluhópar hafa tekið þátt í leitinni til þessa en þeim hefur nú verið fjölgað um átta, þá hefur herinn einnig aðstoðað og mun gera það þar til hans er ekki lengur þörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×