Innlent

Smala ekkert í dag

BBI skrifar
Mynd/Vilhelm
Leitarmenn á Suðurlandi munu ekki smala mikið í dag vegna veðurs. 16 manna hópur á afrétt Gnúpverja, Flóa- og Skeiðamanna heldur nú til í leitarmannakofa í Bjarnalækjarbotnum og bíður veðrið af sér.

„Það er svosem engin vosbúð á okkur," segir Ingvar Hjálmarsson, leitarmaður, en hópurinn er vel vistum búinn. „Við erum með nógan mat og drykk."

Hópurinn kom í kofann í gær og mun ekki yfirgefa hann fyrr en veðrinu slotar. Mennirnir eru sammála um að rokið sé svo mikið að ómögulegt sé að standa í smölun.

Ingvar telur að tafirnar munu ekki hafa nein áhrif á réttir á svæðinu, en til stendur að rétta á Suðurlandi um næstu helgi. „Ef veðrið gengur niður í nótt raskar þetta ekkert miklu," segir hann. Hann segir litla kindavon á svæðinu en engu að síður sé nauðsynlegt að fara yfir það.

Hópurinn býst við að geta lagt af stað á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×