Innlent

Ánægð með ákvörðun Ögmundar - samningaviðræður ekki hafnar

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.
„Umbjóðandi minn er mjög ánægður með þessa ákvörðun," segir Áslaug Árnadóttir hæstaréttarlögmaður og lögmaður Höllu Bergþóru Björnsdóttur, sýslumanns á Akranesi, út af ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að kæra ekki úrskurð kærunefndar jafnréttismála til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Ráðherrann unir því niðurstöðu kærunefndarinnar sem komst að þeirri niðurstöðu að Ögmundur hefði brotið jafnréttislög þegar hann réði karlmann í starf sýslumanns á Húsavík í stað Höllu Bergþóru sem var að minnsta kosti jafn hæf ef ekki hæfari en karlinn.

Ögmundur sagðist hafa metið það út frá huglægum þáttum að karlmaður skyldi frekar vera ráðinn sýslumaður heldur Halla Bergþóra. Þessu var kærunefndin ósammála.

Áslaug segir að næsta skref sé að koma á viðræðum við ráðuneytið en hún og umbjóðandi hennar fréttu fyrst af því í gegnum vefmiðla að Ögmundur hefði ákveðið að kæra ekki niðurstöðuna.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tapaði dómsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní síðastliðnum, en þá var ríkinu gert að greiða Önnu Kristínu Ólafsdóttur hálfa milljón króna í skaðabætur eftir að kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að ráða hefði átt konu í starf skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins. Anna Kristín krafðist fimm milljón krónur í bætur.

Áslaug segir engar hugmyndir vera komnar fram um það hversu háar bætur skjólstæðingur hennar muni krefjast af ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×