Innlent

HÍ og Björk fengu verðlaun

JHH skrifar
Háskóli Íslands hlaut um helgina evrópsk verðlaun fyrir besta vísindamiðlunarverkefni ársins 2011. Um er að ræða svokallaðar Biophilia-tónvísindasmiðjur sem er samstarfsverkefni Bjarkar Guðmundsdóttur tónlistarkonu, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Verðlaunin veita Samtök samskiptasérfræðinga í evrópskum háskólum (EUPRIO) og tók Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri markaðs- og samskiptasviðs Háskóla Íslands, við þeim fyrir hönd háskólans á ársfundi EUPRIO í Gautaborg. Aðild að EUPRIO eiga flestir virtustu háskólar Evrópu.

Alls tóku um 20 verkefni frá evrópskum háskólum þátt í keppninni um besta vísindamiðlunarverkefni ársins 2011 og stóð valið á endanum á milli tveggja verkefna frá Háskóla Íslands, áðurnefndra Biophilia-tónvísindasmiðja og vísindaþáttanna Fjársjóður framtíðar sem sýndir voru á RÚV á aldarafmælisári Háskóla Íslands. Dómnefnd ákvað að verðlauna Biophilia-verkefnið, m.a. vegna þess hve alþjóðlega skírskotun það hefur.

Jón Örn Guðbjartsson tók við verðlaununum fyrir hönd Íslands.
Tónvísindasmiðjurnar voru settar á fót í tengslum við Biophilia-borgardvalir Bjarkar, þar sem hún heldur óvenjulega tónleika í hverri borg fyrir sig í nokkrar vikur í senn. Tónvísindasmiðjurnar eru sem fyrr segir samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Bjarkar Guðmundsdóttur þar sem grunnskólanemar á aldrinum 10-12 ára fá tækifæri til þess að læra um tónlist og vísindi á nýstárlegan hátt í gegnum sköpun og með hjálp spjaldtölva.

Fulltrúar frá Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg og teymi Bjarkar þróuðu kennsluefnið í smiðjunum en þar fræðast nemendur bæði um tónfræði og ýmis undur náttúrunnar, eins og andefni, kristalla, eldingar, jarðrek, vírusa og erfðaefni. Lögin á Biophilia vísa til þessara fyrirbrigða. Í undraheimi Biophilia-verkefnisins læra nemendur einnig á sérstök smáforrit (öpp) í iPad-spjaldtölvum og skapa sínar eigin útsetningar og tónsmíðar og hjálpa jafnframt til við að móta námskrá framtíðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×