Innlent

Minnihlutinn skrópaði allur á fundi

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.
Meirihluti hreppsnefndar Rangársþings ytra á Hellu er afar ósáttur við að allir aðalmenn minnihluta hafi forfallast á síðasta hreppsnefndarfundi. Samþykktu þeir bókun þess efnis að sveitastjóranum væri falið að fá skýringar á forföllunum frá oddvita minnihlutans.

„Kostnaðarsamt er að kalla inn 3 varamenn og skekkir það verulega fjárhagsáætlun. Mikilvægt að aðalmenn kappkosti að sækja fasta boðaða fundi sveitarstjórnar og er vísað til 22. og 31. gr. sveitarstjórnarlaga í þessum efnum þar sem kveðið er á um mætingarskyldu og óviðráðanlegar ástæður fyrir fjarveru á sveitarstjórnarfundum".

Vefurinn DFS hafði samband við Guðmund Inga Gunnlaugsson, oddvita sjálfstæðismanna, sem eru í minnihlutanum til að fá viðbrögð hans við bókuninni. „Þessi bókun er sérstök og við erum ósátt við hana. Mæting okkar á fundi hefur ekki verið síðri en hjá meirihlutanum enda er mætingarskylda.Í þetta sinn kom upp mjög óvenjuleg staða af hreinni tilviljun sem ótrúlegt er að gerist aftur. Við vorum bundin við atburði sem við réðum ekki tímasetningu á, en urðum að sætta okkur við. Aðstæður okkar voru óviðráðanlegar í þetta sinn. Þetta var skýrt fyrir oddvitanum og sveitarstjóranum," sagði Guðmundur Ingi.

Meira má lesa um málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×