Innlent

Alþingi girt af

Þessa mynd má finna á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þessa mynd má finna á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan er búin að girða Alþingi af og er töluverður viðbúnaður vegna þingsetningarathafnar sem hefst klukkan hálf tvö í dag með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.

Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga svo fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup prédikar og séra Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur. Organisti Dómkirkjunnar, Kári Þormar, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina. Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands setur Alþingi, 141. löggjafarþing, og að því loknu flytur forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, ávarp. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16.00. Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verður hlutað um sæti þingmanna. Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 verður þá útbýtt.

Eins og kunnugt er þá voru kröftug mótmæli fyrir utan Alþingi síðasta haust. Þá grýttu mótmælendur meðal annars eggjum í þingmenn. Lögreglan gerir ekki ráð fyrir álíka kröftugum mótmælum í dag.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða á miðvikudagskvöldið 12. september, kl. 19.50. Mótmæli hafa verið boðuð sama kvöld af samtökum sem kenna sig við tunnur. Þau mótmæli hefjast klukkan hálf átta annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×