Innlent

Um 20% stunda nám erlendis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tæplega fimmtungur íslenskra háskólanema stundaði nám erlendis árið 2010. Það er hærra hlutfall en í nokkru öðru ríki sem tilheyrir Efnahags- og framfarastofnunni að Lúxemborg undanskildu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið birti í dag skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, eða OECD, um menntunarstöðu Íslendinga frá aldamótum til ársins 2010.

Þar kemur meðal annars fram að menntunarstaða Íslendinga hefur batnað jafnt og þétt frá aldamótum, en sérstaka athygli vekur að samkvæmt tölum OECD voru tæplega 3800 íslenskir námsmenn við nám erlendis árið 2010. Íslendingar halda mun frekar út fyrir landsteinana en aðrir Norðurlandabúar. Um 20 prósent Íslendinga voru við nám erlendis en Noregur kemur næst með 6,7% hlutfall nemenda.

Norðurlöndin eru gríðarlega vinsæll viðkomustaður íslenskra námsmanna, en um 65% þerra sem fóru út í nám fóru þangað. Flestir leituðu til Danmerkur, en 46% þeirra sem voru úti við nám voru þar. Næstflestir, eða um 12% voru í Bandaríkjunum og Kanada og um 9% voru í Bretlandi og Írlandi.

Á sama tíma og Íslendingar leita út til náms virðast vinsældir íslenskra háskóla vera að aukast. Tæplega 1100 erlendir námsmenn voru við nám á Íslandi árið 2010 sem var tæplega 5% allra háskólanema. Frá árinu 2000 hafði erlendum námsmönnum fjölgað um meira en helming þegar ríflega 400 stunduðu nám á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×