Innlent

Töluverð röskun á slátrun - féð enn fast í fönn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hér er verið að grafa eina kindina upp úr fönn.
Hér er verið að grafa eina kindina upp úr fönn.
Töluverð röskun verður í slátrun hjá Norðlenska vegna fannfergisins fyrir norðan, en talið er að um 12 þúsund fjár séu fastar í fönn. „Við vorum svona að komast upp í full afköst í slátrun þegar þetta gerðist og vorum með lítið í húsi í gær," segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska. Hann segir að það hafi ekki verið hægt að byrja störf fyrr en eftir hádegi í gær

Sigmundur segir þó að svo vel vilji til að yfirleitt sé byrjað að smala í Mývatnssveit og á hærri stöðum. „Þannig að við vorum búin að sækja töluvert af fé upp í Mývatnssveit," segir Sigmundur. „Við höfum verulegar áhyggjur af þessu því féð fær sjokk í þessu veðri og það þarf að ná sér eftir svona áföll," segir hann. Það er því ljóst að ekki er hægt að slátra fénu um leið og það kemur af fjalli.

„Ég held að bændur hafi það mikla þekkingu á þessu að þeir muni setja féð á einhver tún eða þar sem þeir hafa einhverja beit," segir Sigmundur. Hins vegar hafi verið svo miklir þurrkar að það sé erfitt að finna beitarlendi. Sigmundur segir þó ekki vera algera vinnustöðvun í gangi þrátt fyrir skakkaföllin. Féð sé tekið af mjög stóru svæði og von sé á um 900 fjár frá Austurlandi, svæðinu í kringum Egilsstaði.

„En þetta raskar og það er bagalegt af þvi að það var búið að raða 2000 fjár á hvern einasta dag í slátrun næstu tvo mánuði og það riðlast náttúrlega allt," segir Sigmundur. Menn þurfi því að vinna einhverja frídaga á næstunni. „Þetta er óvanalegt ástand," segir Sigmundur og bætir því við að menn hafi ekki verið á varðbergi vegna þess hve góð haustin hafa verið undanfarin ár. „Ég man ekki eftir öðru eins síðan ég byrjaði í þessum sláturgeira," segir Sigmundur, en hann hefur unnið við slátrun frá árinu 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×