Innlent

Leita að 11 þúsund kindum á hættulegum svæðum

BBI skrifar
Lamb situr fast í Mývatnssveit í gær.
Lamb situr fast í Mývatnssveit í gær. Magnús Viðar Arnarsson
Björgunarsveitarfólk leitar nú að um ellefu þúsund kindum á víðfermu svæði. Svæðin eru erfið yfirferðar og leitarflokkarnir verða að fara um á sleðum og snjóbílum, enda ekkert göngufæri á svæðunum.

Víða hefur fennt yfir fé á Norðausturlandi og á meðfylgjandi myndum sést hvernig kindurnar eru á sig komnar þegar leitarflokkar koma að þeim.

Hópar frá björgunarsveitum frá Húnavatnssýslum að Breiðdalsvík leita að kindum á Þeistareykjum eins og stendur. Þar er áætlað að um 4000 kindur séu tepptar. Á Reykjaheiði leita aðrir hópar en áætlað er að um 2000 kindur séu þar. Einnig á að ljúka leit í Mývatnssveit en þar á eftir að leita á einum bæ af fjórum þar sem fennti yfir fé.

Á Vaðlaheiði, Flateyjardal og Bárðardal er einnig leitað, en þar eru líklega um 4-5 þúsund fjár. Ástandið í Flateyjardal er skárra en víðast hvar annars staðar þar sem grunnt er á fénu. Í Vaðlaheiði er dýpra á því en ástandið þó viðunandi.

Um 100 manns frá björgunarsveitum taka þátt í leitinni á þessum svæðum og nota til þess tugi vélsleða, snjóbíla, fjórhjól, kerrur og önnur tæki. Svæðin eru hættuleg og erfið yfirferðar og því er reynt að hafa staðkunnuga aðila í hverjum hópi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×