Innlent

Landhelgisgæslan hjálpar til við leit að sauðfé

Kindur í klípu.
Kindur í klípu.
Landhelgisgæslan hefur ákveðið að senda flugvélina TF-SIF til leitar í samstarfi við almannavarnayfirvöld í Þingeyjarsýslum. Vélin var komin á svæðið við Þeystareyki norður af Mývatni um klukkan tvö í dag og aðstoðar bændur og björgunarfólk að leita að sauðfé á svæðinu út frá leiðbeiningum frá almannavarnayfirvöldum.

Landhelgisgæslunni barst fyrirspurn um hádegisbilið í dag hvort tækjabúnaður í loftförum LHG gætu hugsanlega nýst við leit að sauðfé sem fennt væri í kaf. Ein þyrla LHG auk flugvélarinnar TF-SIF eru búnar hitamyndavélum sem geta nýst í þessum tilfellum að mati starfsmanna LHG.

Gríðarlega mikið af sauðfé er á hrakhólum á svæðinu og er kappkostað við að reka það til byggða þessa stundina. Lýst var yfir neyðarástandi í Þingeyjarsýslum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×