Innlent

Jóhanna: Stóraukin fjárfesting

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjárfesting fyrstu sex mánuði ársins 2012 jókst um 19,3% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2011, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni í kvöld. Hún sagði að fjárfesting atvinnuvega hefði aukist um 27,1% og íbúðafjárfesting um 7,7% en fjárfesting hins opinbera dregist saman um 6,2% á sama tímabili.

„Fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er mikilvægur leiðarvísir á þeirri vegferð að auka fjárfestingar enn frekar og skapa ný störf, en eftirfylgni þeirrar áætlunar verður eitt af mikilvægum samstarfsverkefnum okkar þingmanna á komandi vetri. Með nýsamþykktum stórauknum veiðigjöldum af sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar hefur um helmingur af tilskildu fjármagni vegna áætlunarinnar verið tryggður og er áhrifa hennar þegar farið að gæta. Nefni ég sérstaklega undirbúning framkvæmda við Norðfjarðargöng, sem hefjast munu á næsta ári, en einnig stórefld framlög til rannsókna og tækniþróunar og sóknaráætlana landshluta," segir Jóhanna.

Þá sagði Jóhanna að komandi þing væri lokasprettur þessa kjörtímabils og tækifæri fyrir þann þingheim sem þjóðin veitti umboð sitt í síðustu kosningum til að sýna aðra og betri mynd af störfum þjóðþingsins en birst hefur á liðnum þingum. „Sú birtingarmynd hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Hún hefur gengið fram af þjóðinni með þeim afleiðingum að traust hennar til þessarar merku og sögufrægu stofnunar okkar Íslendinga er í sögulegu lágmarki," sagði Jóhanna.

Athygli vekur að Jóhanna vék ekki einu orði að störfum Evrópusambandsins, en fyrr á kjörtímabilinu samþykkti ríkisstjórnin aðildarviðræður við Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×