Innlent

Um 250 björgunarmenn að störfum í dag

Um tvöhundruð og fimmtíu manns í björgunarsveitum frá Breiðdalsvík til Siglufjarðar, og af höfuðborgarsvæðinu, verða við störf í dag á norðaustururlandi og leita kinda.

Búið er að flytja mikið af björgunartækjum, snjósleðum, snjóbílum, jeppum, fjórhjólum og kerrum, á svæðið.

Í gær var gerð hraðleit á Þeistareykjasvæðinu og þar fannst töluverður fjöldi kinda sem grafa þurfti úr fönn. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að nokkrum vandkvæðum sé bundið að koma fénu af svæðinu sem er mjög torfært.

Um 200 kindur voru fluttar niður af Reykjaheiði í gær og búið er að leita Vaðlaheiði og Bárðardal. Meirihluti fjárins sem hefur fundist er á lífi; ekki finnst mikið dautt fé.

Í dag verður meginþunga leitarinnar beint á Þeistareykjum, í Fjóskárdal og Flateyjardal en einnig verður leitað í Skarðsdal og bændur aðstoðaðir í Kelduhverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×