Innlent

Sjálfstæðismenn furða sig á gríðarlega auknum launakostnaði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.
Hanna Birna Kristjánsdóttir er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.
Launakostnaður Reykjavíkurborgar fór einum milljarði frammúr áætlun á fyrri helmingi ársins. Þetta kemur fram fréttatilkynningu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vísa í árshlutauppgjör borgarinnar. Sjálfstæðismenn kröfðust skýringa á þessum umframkostnaði í fyrirspurn sem þeir lögðu fram á borgarráðsfundi í dag. Sjálfstæðismenn segja að rekstrarkostnaður hafi aukist í takt við skatta og gjaldskrárhækkanir meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Illa gangi að ná hagræðingu og sparnaði í kerfinu sjálfu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðsflokksins segir, í tilkynningu, að því miður sé margt í fjármálum borgarsjóðs vera að þróast á verri veg. „Nú þegar hvert árshlutauppgjörið á eftir öðru staðfestir þessa stöðu, er nauðsynlegt að umræðan hverfi frá stöðugum aðvörunum borgarfulltrúa minnihlutans til alvöru aðgerða meirihlutans. Stóraukin kostnaður vegna launaþáttarins er liður í því sem verður að skoða betur og fá ítarlegri skýringar á. Tæplega fjórðungs hækkun á tveimur árum verður ekki aðeins skýrð með lögbundnum launahækkunum eða lífeyrisskuldbindingum, heldur er augljóst að eftirlitslítill vöxtur í kerfinu sjálfu er farinn að kosta borgarbúa alltof, alltof mikið," segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×