Innlent

Síðustu bæirnir að komast í samband

BBI skrifar
Unnið af kappi við að koma rafmagni á.
Unnið af kappi við að koma rafmagni á.
„Það er bara um það bil á þessari stundu sem þeir eru að ganga frá tengingunum," segir Örlygur Jónasson, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs hjá Rarik. Síðustu bæirnir á Norðurlandi verða því komnir í samband við rafmagn á næstu klukkutímum eftir rafmagnsleysi síðustu daga.

Rafmagnslínur fóru í sundur í fárviðrinu í byrjun vikunnar með þeim afleiðingum að rafmagn fór af stórum hluta Norðurlands. „Það er búið að vera mjög erfitt að eiga við þetta," segir Örlygur, en um fimmtíu manns hafa unnið hörðum höndum við að koma rafmagni á síðustu daga.

Um miðnætti í gær var rafmagnið nánast komið á alls staðar á Norðurlandi en eftir stóðu um tíu bæir við Mývatn. „Þeir hafa verið að detta inn smátt og smátt í allan dag," segir Örlygur.

Um 30 starfsmenn frá Rarik eru nú á svæðinu og vinna við að leggja bráðabirgða strengi og reisa staura. Þeir reka smiðshöggið á verkið innan stundar þegar síðustu bæirnir komast í samband.

Í gær vonuðust menn til að rafmagn yrði komið á alls staðar fyrir nóttina. Það gekk ekki eftir enda reyndist ástandið verra en menn höfðu búist við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×