Innlent

Átján ára Íslendingur skotinn til bana í Tulsa

Karen Kjartansdóttir skrifar
Tulsa.
Tulsa. mynd/wiki commons
Átján ára íslenskur piltur var skotinn til bana í borginni Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum í gærmorgun. Bandarískur maður liggur alvarlega særður á sjúkrahúsi eftir sömu árás og pilturinn lét lífið í. Lögregla leitar mannsins.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að pilturinn hafi verið staddur í bíl fyrir utan verslun snemma morguns í gær að staðartíma ásamt öðrum manni sem ók bílnum. Haft er eftir vitni að mennirnir hafi lent í orðaskaki við þriðja mann sem staddur var á bílastæðinu, sá hafi skyndilega dregið upp byssu og skotið þá báða.

Þeir voru fluttir á sjúkrahús þar sem pilturinn var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu en hinn maðurinn liggur þar alvarlega slasaður.

Morðinginn komst undan á flótta en lögreglan í Tulsa er nú að fara yfir upptökur eftirlitsmyndavéla á svæðinu. Þá hefur hún sent frá sér lýsingu á útliti mannsins og biður þá sem kunna að hafa upplýsingar um málið að hafa samband.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá nafni piltsins í dag en fréttastofa vill bíða með nafnbirtingu að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Áður verið framið morð þar sem íslenski pilturinn dó

Staðurinn þar sem íslenski pilturinn var myrtur í Tulsa í gærmorgun er sami staður og fólk á þrítugsaldri var myrt á þann 30. ágúst í fyrra. Íslenski pilturinn var staddur á bílastæði við QuikTrip matsölustað þegar hann og maður á fertugsaldri, sem var með honum, voru skotnir. Sá íslenski lést en samferðarmaður hans særðist illa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×