Innlent

Segir börn flýja frá Sýrlandi vannærð

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Sýrlensk börn í flóttamannabúðum UNICEF í Jórdaníu eru ofbeldisfull og þjást af næringarskorti þegar þau koma í búðirnar. Þetta segir íslensk kona sem starfar þar. Hún segist hafa séð sjö ára stelpur slást eins og fullorðna karlmenn.

Yfir hundrað og áttatíu þúsund sýrlenskir flóttamenn hafa flúið yfir til Jórdaníu frá því að átökin hófust í Sýrlandi fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan. Steinunn Björgvinsdóttir sem starfar fyrir barnavernd UNICEF í Jórdaníu segir gríðarlegan fjölda streyma inn í landið dag hvern.

„Daginn sem flestir komu yfir voru hátt í 4000 manns sem komu á einum sólarhring. Þannig að það er mikið viðbragðsstarf sem þarf að setja upp til að geta tekið á móti öllu þessu fólki," segir Steinunn.

Zaatari flóttamannabúðirnar eru staðsettar um fimmtán kílómetrum frá landamærum Sýrlands og Jórdaníu og segir Steinunn fólk vera uppgefið og vannært eftir langt ferðalag. Þá séu börnin þreytt, pirruð og mörg ofbeldisfull vegna álagsins.

„Þegar maður kom á barnvænu svæðin okkar þá var mikið um slagsmál og ég man sérstaklega eftir að ég var svo hissa á því að sjá ungar stelpur 7-8 ára gamlar slást eins og fullorðnir karlmenn. Þetta er rosalegt og hefur allt að gera með það hverskonar álagi þær eru undir."

Á barnvænu svæðunum er reynt að koma lífi barnanna í eðlilegar skorður og segist Steinunn sjá mikinn mun á einungis einum mánuði.

„Krakkarnir eru allt öðruvísi, þau leika sér meira, það eru minni slagsmál, maður sér þau leiðast og róla sér saman. Börnin eru orðin ofboðslega náin starfsfólkinu þannig að maður sér að þetta er að gera rosalegan mun þannig að það þarf rosalega lítið til þess að hjálpa þessum börnum."

Söfnunarsími UNICEF: 908-1000 / 908-3000 / 905-5000




Fleiri fréttir

Sjá meira


×