Fótbolti

Cristiano Ronaldo skallaði Portúgal inn í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Portúgal varð í kvöld fyrsta þjóðin til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu í fótbolta. Cristiano Ronaldo tryggði þá Portúgal 1-0 sigur á Tékklandi þegar hann skoraði eina mark leiksins ellefu mínútum fyrir leikslok.

Cristiano Ronaldo er þar með búinn að skora þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum og er heldur betur búinn að stimpla sig inn í þessa keppni. Portúgalir mæta annaðhvort Spáni eða Frakkland í undanúrslitunum en þau mætast á laugardagskvöldið.

Portúgalir fóru í gang í lok fyrri hálfleiksins og litu ekki til baka eftir það. Þeir voru í stórsókn stærsta hluta seinni hálfleiks og markið lá í loftinu allan hálfleikinn.

Liðin tóku ekki mikla áhættu í upphafi leiks og leikurinn var ekki mikið fyrir augað framan af. Tékkar héldu aftur af portúgalska liðinu fram eftir öllum fyrri hálfleiknum en Cristiano Ronaldo lifnaði við á lokakaflanum og fékk þá þrjú fín færi.

Hélder Postiga þurfti að fara meiddur af velli á 40. mínútu og Hugo Almeida kom inn fyrir hann. Almeida hafði góð áhrif á sóknarleik Portúgala og Ronaldo fékk besta færi hálfleiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Ronaldo fékk þá flotta sendingu inn í teiginn frá Raúl Meireles en átti eftir að gera mikið áður en hann náði skoti sem small í stönginni. Tékkar sluppu þar með skrekkinn.

Portúgalir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Cristiano Ronaldo átti skot í utanverða stöngina úr aukaspyrnu á 50. mínútu. Fjórum mínútum síðar spilaði Meireles Ronaldo enn á ný í færi en skot hans var misheppnað og fór langt yfir.

Portúgalir voru þarna búnir að taka algjörlega yfir leikinn. Petr Cech varði vel frá Nani á 58. mínútu og mark Hugo Almeida mínútu síðar var síðan dæmt af vegna rangstöðu.

Stórsókn Portúgala hélt áfram en Petr Cech var áfram vakandi í markinu. Hann kom þó ekki í veg fyrir frábæran skalla Cristiano Ronaldo ellefu mínútum fyrir leikslok.

Cristiano Ronaldo fékk þá frábæra fyrirgjöf frá Joao Moutinho og skoraði með föstum skutluskalla í jörðina og í markið, óverjandi fyrir Cech. Alvöru mark fyrir alvöru mann sem reyndist vera eina mark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×