Fótbolti

Bonucci: Englendingar spila eins og Ítalir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonardo Bonucci og Mario Balotelli.
Leonardo Bonucci og Mario Balotelli. Mynd/AFP
Leonardo Bonucci, miðvörður Ítala og sá sem róaði niður Mario Balotelli í sigrinum á Írum, telur að enska landsliðið ætli að nota ítalska leikaðferð þegar þjóðirnar mætast í átta liða úrslitum Evrópumótsins á sunnudaginn.

„Enska landsliðið er farið að líkjast meira ítölsku liði þökk sé Capello og öðrum ítölskum stjórum í ensku úrvalsdeildinni. Enska liðið hefur samt bætt sig mikið undanfarin tvö ár," sagði hinn 25 ára gamli Leonardo Bonucci sem leikur með ítölsku meisturunum í Juventus.

„Enska liðið er að verjast betur og þeir geta beitt skyndisóknum. Það er fullt að topp leikmönnum í liðinu og það er ekki bara Rooney. Við höfum samt líklega verið að spila betur í mótinu hingað til," sagði Leonardo Bonucci.

Bonucci vakti mikla athygli þegar hann róaði niður Mario Balotelli þegar Balotelli virtist blóta þjálfara sínum í sand og ösku eftir að hann skoraði markið sitt á móti Írum. Balotelli var settur á bekkinn fyrir leikinn en kom inn á völlinn og skoraði.

„Ég spilaði með Mario í unglingaliði Inter og ég þekki hann betur en allir aðrir hér. Hann var bara 17 ára þá en ég var strax byrjaður að skamma hann. Svona er hann bara og þess vegna passaði ég upp á hann í fagnaðarlátunum á móti Írlandi. Hann þakkaði mér fyrir það," sagði Bonucci

„Því miður gerir hann stundum fáránlega hluti. Hann missir oft stjórn á sér en hann er góður strákur. Ef hann myndi brosa aðeins meira þá er hann leikmaður sem getur gert útslagið fyrir okkur. Hann er óútreiknanlegur, sterkur og kraftmikill," sagði Bonucci.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×