Fótbolti

Sænskur blaðamaður njósnaði um liðsuppstillingu Englands

Svíar og Englendingar áttust við í frábærum leik á EM sem endaði 3-2 fyrir England.
Svíar og Englendingar áttust við í frábærum leik á EM sem endaði 3-2 fyrir England. Nordic Photos/Getty Images
Leikur Englendinga og Svía á EM s.l. föstudag var stórkostleg skemmtun þar sem að Englendingar fóru með sigur af hólmi 3-2. Það dugði ekki fyrir Svía að þeir fengu nánast allar upplýsingar um liðsval og leikaðferð Roy Hodgson þjálfara enska landsliðsins löngu áður en leikurinn hófst. Sænskur blaðamaður Ola Billger náði að horfa á „töflufund" enska landsliðsins í gegnum hótelglugga í Kænugarði og sendi hann allar upplýsingarnar á forráðamenn sænska landsliðsins – sem voru afar þakklátir fyrir.

Billger, sem starfar sem blaðamaður á Svenska-Dagbladet, sá fyrir tilviljun að enska landsliðið var að funda þar sem hann leit út um gluggann á hótelherbergi sínu. Hann tók fram sjónauka og sá hvernig Englendingar ætluðu að stilla upp liði sínu – og einnig hvaða áherslur þeir ætluðu að leggja upp með í sókn – sem vörn.

„Ég var með frábært útsýni í 40 mínútur, við heyrðum að sjálfsögðu ekki neitt, en við sáum ýmislegt sem voru góðar upplýsingar fyrir Svía. Við sáum að Andy Carroll yrði í byrjunarliðinu og Alex Oxlade-Chamberlain yrði á bekknum," sagði Billger. Hann kom upplýsingunum á framfæri til Reine Almquist sem starfar fyrir sænska knattspyrnusambandið. Þessar upplýsingar komu hinsvegar ekki í veg fyrir að Svíar töpuðu leiknum 3-2 og eru þeir úr leik í keppninni um tvö efstu sætin í D-riðlinum.

Lokaumferðin í D-riðli fer fram á þriðjudaginn þar sem að Englendingar leika gegn Úkraínu, og Svíar gegn Frökkum. England og Frakkland eru með 4 stig, Úkraína 3 og Svíar eru án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×