Fótbolti

Landsliðsþjálfari Brasilíu segir Messi bestan í heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Mano Menezes, landsliðsþjálfari Brasilíu, viðurkennir að Argentínumaðurinn Lionel Messi sé besti knattspyrnumaður heims um þessar mundir.

Messi hefur farið á kostum með Barcelona á undanförnum árum og skoraði til að mynda 50 deildarmörk með Börsungum á nýliðinni leiktíð. Það er vitanlega met en Messi hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Barcelona.

Hann á hins vegar eftir að ná sömu hæðum með landsliði sínu og hefur oft verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í ljósbláa og hvíta búningnum. Brasilíumaðurinn Pele hefur ítrekað gefið í skyn að Messi sé ekki endilega sá besti og að Neymar sé ekki síðri knattspyrnumaður.

Brasilía og Argentína mætast í vináttulandsleik á laugardaginn kemur. „Við munum mæta þeim besta í heiminum," sagði Menezes. „Hann býr yfir einstökum hæfileikum og við verðum að passa upp á að hann fái ekki að gera það sem hann vill með boltann."

Brasilía verður gestgjafi á HM 2014 og tekur því ekki þátt í undankeppninni í Suður-Ameríku. Messi skoraði eitt mark í 4-0 sigri Argentínu á Ekvador á dögunum og trónir liðið á toppi riðilsins með tíu stig eftir fimm leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×