Fótbolti

Lionel Messi afgreiddi Brassana - skoraði þrjú í 4-3 sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar með félögum sínum í kvöld.
Lionel Messi fagnar með félögum sínum í kvöld. Mynd/AP
Lionel Messi skoraði þrennu og þar á meðal sigurmarkið þegar Argentína vann 4-3 í mögnuðum leik á móti Brasilíu í kvöld en leikurinn íor fram í New Jersey í Bandaríkjunum í kvöld. Sjö mörk og tvö rauð spjöld litu dagsins ljós í þessum "vináttulandsleik" nágrannanna.

Romulo kom Brasilíu í 1-0 á 23. mínútu en Lionel Messi svaraði með tveimur mörkum á 32. og 34. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Gonzalo Higuaín lagði upp það fyrra en Ángel Di María það síðara.

Oscar jafnaði leikinn á 56. mínútu og Hulk kom Brasilíu í 3-2 á 72. mínútu. Federico Fernández jafnaði metin á 75. mínútu eftir sendingu frá Sergio Agüero og Messi skoraði síðan sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok.

Brasilíumaðurinn Marcelo og Argentínumaðurinn Ezequiel Lavezzi fengu báðir beint rautt spjald á 90. mínútu.

Neymar skoraði ekki fyrir Brasilíu en lagði upp tvö marka liðsins.

Lionel Messi er heldur betur farinn að finna sig með argentínska landsliðinu eftir erfiðleika undanfarin ár. Hann var þarna að skora í fjórða landsleiknum í röð og hefur alls skorað 7 mörk í 3 landsleikjum Argentínu á árinu 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×