Enski boltinn

Stiliyan Petrov fær innblástur frá Fabrice Muamba

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stiliyan Petrov í stúkunni í gær þegar Villa tók á móti Chelsea.
Stiliyan Petrov í stúkunni í gær þegar Villa tók á móti Chelsea. Mynd. Getty Images.
Stiliyan Petrov, leikmaður Aston Villa, greindist með hvítblæði á dögunum og bíður hans erfið lyfjameðferð en í kjölfarið lagði Búlgarinn skóna á hilluna.

Petrov var mættur á áhorfendapallana á Villa Park, heimavelli Aston Villa, um helgina og var vel tekið á móti honum af áhorfendum beggja liða. Aston Villa tapaði fyrir Chelsea 4-2 í leiknum, en Petrov er staðráðinn í því að sigrast á þessum skelfilega sjúkdómi.

Petrov tjáði sig lítillega við fjölmiðla eftir leikinn en hann segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum af ótrúlegum bata Fabrice Muamba, leikmanni Bolton, sem fékk hjartastopp í miðjum leik gegn Tottenham alls ekki fyrir löngu.

„Mig langar að þakka allan þann stuðning sem ég og fjölskylda mín höfum fengið undanfarna daga," sagði Petrov.

„Það eru erfiðir tímar framundan fyrir bæði mig og fjölskyldu mína. Með hjálp frá mínum nánustu, liðsfélögum mínum og aðdáendum Aston Villa þá mun ég sigrast á þessum sjúkdómi."

„Ég hef fylgst vel með Fabrice Muamba og dugnaður hans hefur veitt mér mikinn innblástur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×