Enski boltinn

Ferguson um De Gea: Hefur sýnt miklar framfarir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David De Gea.
David De Gea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, talar vel um spænska markvörðinn David De Gea sem hann segir hafa gert vel með því að komast í gegnum erfiða fyrstu mánuði á Old Trafford.

Um tíma í vetur valdi Ferguson Anders Lindergaard nokkrum sinnum í liðið frekar David De Gea en nú er enginn spurning lengur um hver sé aðalmarkvörður United-liðsins. De Gea hefur nú haldið marki sínu hreinu í þremur deildarleikjum í röð.

„Ég get sagt svipað um De Gea eins og Steve Kean. Hann sleppti ekki takinu og stóð uppréttur eins og sannur karlmaður," sagði Sir Alex Ferguson og vill meina að þrjóskan í þeim tveimur hafi skilað þeim í gegnum erfiða tíma.

„Hann hefur verið mest gagnrýndur fyrir að ráða ekki nógu vel við háa bolta í teignum og hann hefði átt að gera betur í hornspyrnunni í fyrri leiknum á móti Blackburn. Hann vissi það líka sjálfur," sagði Ferguson. Einn slakasti leikur De Gea kom einmitt í 2-3 tapi á móti Blackburn á Gamlársdag en liðin mætast aftur í kvöld.

„Hann tók á þessu vandamáli og lét þetta ekki draga sig niður. Nú er hann farinn að spila fullur af sjálfstrausti og sjálfstraust skiptir miklu máli í fótbolta," sagði Ferguson.

„Það tók hann tíma að aðlagast enska boltanum en núna er hann búinn að sýna miklar framfarir. Við sáum hvað bjó í honum og hann er farinn að sýna öllum hvað hann getur," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×