Netheimar sýndu fram á mátt sinn í dag þegar ungt par frá Seattle í Bandaríkjunum endurheimti myndavél sem þau höfðu glatað á Íslandi.
Atburðarásin hófst á Reykjavíkurflugvelli í síðustu viku. Ung kona fann þar stafræna myndavél á glámbekk og var eigandinn hvergi sjáanlegur. Hún hlóð ljósmyndunum inn á Facebook og biðlaði til notenda síðunnar um að deila myndaalbúminu.
"Frænka mín fann myndavél á Reykjavíkurflugvelli fimmtudaginn 22. mars 2012," var ritað við myndaalbúmið. "Nýjustu myndirnar voru teknar í Reykjavík."
Á myndavélinni voru einnig nokkrar ljósmyndir sem teknar höfðu verið í Bandaríkjunum.
Íslenskir Facebook-notendur tóku höndum saman og dreifðu upplýsingunum um veraldarvefinn.
Málið rataði jafnvel inn á heimasíður íslenskra fjölmiðla.
Það voru síðan úrræðagóðir notendur vefsíðunnar Reddit sem tóku málin í sínar hendur. Einn notandi hóf spjallþráð þar sem hann auglýsti eftir eigendum ljósmyndanna.
Þráðurinn fékk rúmlega 700 svör - þar á meðal fá einum sem kannaðist við stúlkuna á myndunum. Hún reyndist vera nágranni hans. Hann sendi henni skilaboð á Facebook og benti henni á albúmið á Facebook.
Hún hefur nú haft samband við fólkið sem er með myndavélina.
Glötuðu myndavélinni í Reykjavík - Internetið kom til bjargar

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.