Enski boltinn

Ferguson hrósar Bilbao| tekst Man Utd að vinna upp 3-2 tap á útivelli?

Það er mikið í húfi í kvöld hjá Englandsmeistaraliði Manchester United þegar liðið leikur síðari leikinn gegn spænska liðinu Atletico Bilbao í 16 – liða úrslitum Evrópudeildar UEFA. Spánverjarnir komu gríðarlega á óvart með sannfærandi 3-2 sigri á Old Trafford, þar sem Bilbao setti met hvað varðar hlaupagetu og úthald.

Útsending frá leiknum hefst kl. 17:50 að íslenskum tíma í dag og er leikurinn sýndur á Stöð 2 sport. Með því að smella á hnappinn hér fyrir ofan má hlusta á þrumuræðu stuðningsmanns Man Utd fyrir leikinn í dag.

„Við fengum sannanir fyrir því í fyrri leiknum að ungt lið á uppleið hefur möguleika á að ná langt. Þeir léku gríðarlega vel gegn okkur. Það eru hæfileikar í liðinu en hlaupagetan var ótrúleg. Það hefur ekkert lið hlaupið eins mikið á Old Trafford í áratug," sagði Ferguson á fundi með fréttamönnum á Spáni í gær.

Manchester United á það á hættu að falla úr tveimur Evrópukeppnum á sama tímabili – eitthvað sem hefur ekki gerst í 25 ár á Old Trafford. „Við ætlum okkur sigur í þessum leik, ekkert annað kemur til greina," sagði Ferguson.

Hinn litríkir þjálfari Athletic Bilbao, Marcelo Bielsa, ætlar ekki að spila upp á jafntefli sem dugir liðinu til þess að komast í 8 liða úrslit keppninnar. Bielsa notaði nánast sömu setningu og Ferguson á fundi með fréttamönnum í gær. „Við ætlum okkur að vinna leikinn – ekki að gera jafntefli," sagði Bielsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×