Enski boltinn

Villas-Boas er sterklega orðaður við Inter

Portúgalinn Andre Villas-Boas þarf ekki að hafa áhyggjur af fjármálum sínum næstu misserin.
Portúgalinn Andre Villas-Boas þarf ekki að hafa áhyggjur af fjármálum sínum næstu misserin. Getty Images / Nordic Photos
Það er þekkt stærð í fótboltaheiminum að þjálfara og knattspyrnustjórara eru reknir og ráðnir á ný með stuttu millibili. Portúgalinn Andre Villas-Boas þarf ekki að hafa áhyggjur af fjármálum sínum næstu misserin þrátt fyrir að hann hafi verið rekinn frá enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea í síðustu viku. Villas-Boas er nú sterklega orðaður við ítalska liðið Inter sem er í frjálsu falli undir stjórn Claudio Ranieri.

Hinn þaulreyndi Claudio Ranieri er með samning við Inter í eitt ár til viðbótar en hann hefur ekki náð árangri með Inter. Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Englands hefur útilokað að hann muni taka við Inter. Á þriðjudaginn í þessari viku féll Inter úr keppni í Meistaradeildinni þrátt fyrir 2-1 sigur gegn Marseille á heimavelli. Inter er 17 stigum á eftir toppliði AC Milan í ítölsku deildarkeppninni og situr Inter í sjöunda sæti.

Villas-Boas er enn á launum hjá Chelsea en hann fær rúmlega 3,4 milljarða kr. á næstu tveimur árum í laun frá félaginu – þrátt fyrir að hafa verið rekinn.

Chelsea komst áfram í Meistaradeild Evrópu í gær með með mögnuðum 4-1 sigri gegn Napólí í 16-liða úrslitum. Chelsea tapaði fyrri leiknum, 3-1, á útivelli þar sem Villas-Boas setti flesta reynslumestu leikmenn liðsins á varamannabekkinn. Í gær var annað uppi á teningnum þar sem reynsluboltarnir í Chelsea sáu um að skora mörkin í 4-1 sigri, í framlengdum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×